Knattspyrnumaðurinn Davíð Kristján Ólafsson er að ganga til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Kalmar. Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu.
Davíð, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Aalesund í Noregi en hann hefur leikið með liðinu frá árinu 2019.
Bakvörðurinn er uppalinn hjá Breiðabliki en hann lagði upp sjö mörk í norsku B-deildinni á nýliðinni leiktíð þegar Aalesund tryggði sér sæti í efstu deild.
Samningur Davíðs við Aalesund rann út um áramótin og honum var því frjálst að ræða við önnur lið.
Kalmar hafnaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en fótbolti.net greinir frá því að félög á Norðurlöndunum og í Póllandi hafi sýnt leikmanninum mikinn áhuga.