Enski knattspyrnumaðurinn Chris Smalling hefur gefið eftir og samþykkt að verða bólusettur við kórónuveirunni svo hann geti haldið áfram að spila með Roma á Ítalíu.
Samkvæmt nýjum reglum ítölsku ríkisstjórnarinnar sem taka gildi á morgun þurfa leikmenn í ítölsku A-deildinni að hafa verið bólusettir a.m.k. einu sinni til að fá að spila.
Samkvæmt Sky Sports hafa um það bil tíu leikmenn í deildinni neitað að láta bólusetja sig og Smalling hafi verið einn þeirra en nú hafi hann gefið eftir.
Roma mætir AC Milan annað kvöld þannig að Englendingurinn ætti að geta spilað þann mikilvæga leik.