Real Madríd lætur til skara skríða

Kylian Mbappé verður samningslaus næsta sumar.
Kylian Mbappé verður samningslaus næsta sumar. AFP

Forráðamenn knattspyrnuliðs Real Madríd á Spáni hafa lagt fram tilboð í franska sóknarmanninn Kylian Mbappé. Það er Sportsmail sem greinir frá þessu.

Tilboðið hljóðar upp á 42 milljónir punda en Mbappé, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn París SG í Frakklandi.

Samningur hans í frönsku höfuðborginni rennur út næsta sumar og getur hann þá farið frítt frá félaginu.

Mbappé er á meðal eftirsóttustu leikmanna heims en Sportsmail greinir frá því að Real Madrid vonist til þess að klófesta leikmanninn í janúar svo félagið þurfi ekki að berjast við öll stærstu félög Evrópu um undirskrift leikmannsins næsta sumar.

Sóknarmaðurinn hefur skorað 150 mörk fyrir París SG í 196 leikjum, ásamt því að leggja upp 76 mörk, en hann er uppalinn hjá Mónakó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert