Real Madrid náði fram hefndum gegn smáliðinu

Leikmenn Alcoyano fagna eftir að hafa jafnað gegn Real Madrid …
Leikmenn Alcoyano fagna eftir að hafa jafnað gegn Real Madrid í kvöld. AFP

C-deildarliðið Alcoyano náði ekki að endurtaka afrekið frá því fyrir ári síðan þegar liðið fékk stórveldið Real Madrid í heimsókn í 32ja liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld, annað árið í röð.

Í fyrra vann Alcoyano ótrúlegan sigur, 2:1, í framlengdum leik liðanna og aftur þurftu leikmenn Real Madrid að hafa mikið fyrir hlutunum þegar liðin mættust í kvöld. Eder Militao kom Real yfir en Dani Vega jafnaði fyrir heimamenn eftir glæsilegan einleik. Það var síðan Marco Asensio sem kom Real yfir á ný áður en 42 ára markvörður Alcoyano innsiglaði úrslitin með sjálfsmarki, 3:1.

Barcelona þurfti líka að hafa fyrir sigri á C-deildarliði í kvöld og vann Linares, 2:1. Dani Alves lék sinn fyrsta leik með Barcelona í fimm ár en eftir að Linares komst óvænt yfir náðu Ousmane Dembélé og Ferran Jutgla að skora og tryggja Barcelona sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert