Lionel Messi, sóknarmaður knattspyrnuliðs París SG í Frakklandi, er laus við kórónuveiruna en hann fékk neikvæða niðurstöðu úr síðasta PCR-prófi og er mættur aftur til Frakklands.
Messi, sem er 34 ára gamall, greindist með veiruna strax í upphafi árs en hann eyddi jólafríinu í heimalandi sínu Argentínu.
Ásamt Messi greindust þeir Juan Bernat, Sergio Rico og Nathan Bitumazala allir með veiruna en þeir eru einnig samningsbundnir París SG.
Messi sneri aftur til Frakklands í gærkvöldi en óvíst er hvort leikmaðurinn verði klár í slaginn þegar París SG heimsækir Lyon í frönsku 1. deildinni á sunnudaginn kemur.