Ef Wales kemst ekki í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Katar sem fram fer í árslok 2022 mun Gareth Bale líklega leggja fótboltaskóna á hilluna næsta sumar.
Sky Sports segir að þetta sé staðan hjá Bale sem íhugi það alvarlega að ljúka knattspyrnuferlinum í vor. Hann er enn á mála hjá Real Madrid en hefur mest lítið spilað í vetur, aðeins komið við sögu í þremur leikjum í 1. deildinni og þeir voru allir í ágústmánuði.
Frá þeim tíma hefur hann verið frá keppni með ýmiss konar meiðsli en tók þó þátt í 5:1 sigri Walesbúa í undankeppni HM í nóvember og spilaði þá í 90 mínútur. Það var hans 100. landsleikur.
Real Madrid keypti Bale fyrir metfé af Tottenham árið 2013 og lánaði hann aftur þangað tímabilið 2020-21. Bale, sem er 32 ára gamall, hefur leikið 174 leiki fyrir Real Madrid í spænsku 1. deildinni og skorað 81 mark, og samtals gert 106 mörk í 254 mótsleikjum fyrir félagið.
Samningur hans við Real Madrid rennur út að þessu tímabili loknu. Wales fer í umspil í mars, ásamt Austurríki, Skotlandi og Úkraínu sem spila um eitt sæti á HM í Katar. Takist Wales að vinna sér keppnisréttinn þar er líklegt að Bale geri skammtímasamning við lið í ensku úrvalsdeildinni, eða við annaðhvort velska félagið Swansea eða Cardiff í ensku B-deildinni og spili þar fram að HM.