Elías falur fyrir 740 milljónir

Elías Rafn Ólafsson.
Elías Rafn Ólafsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Danska knattspyrnufélagið Midtjylland hefur sett háan verðmiða á íslenska landsliðsmarkvörðinn Elías Rafn Ólafsson sem nú er formlega orðinn aðalmarkvörður liðsins.

Jonas Lössl er farinn frá Midtjylland til Brentford í ensku úrvalsdeildinni en hann og Elías hafa skipt með sér markvarðarstöðu liðsins á yfirstandandi tímabili. Lössl hefur þegar lýst því yfir að hann hafi ekki áhuga á að koma aftur til Midtjylland að lánsdvölinni lokinni í London.

Nordicbet.dk segir að Midtjylland ætli sér ekki að selja Elías nema þá fyrir mjög háa upphæð og segir að hann verði ekki falur fyrir minna en 37,5 milljónir danskra króna, eða um 740 milljónir íslenskra króna. Þetta var undirstrikað um áramótin þegar samningur Elíasar við félagið var framlengdur til ársins 2025.

Elías er 21 árs gamall en ásamt því að slá í gegn með liði Midtjylland var hann gerður að aðalmarkverði íslenska landsliðsins í haust og spilaði fjóra síðustu landsleiki ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert