Gladbach með tak á Bayern

Leikmenn Gladbach fagna sigrinum í kvöld.
Leikmenn Gladbach fagna sigrinum í kvöld. AFP

Þýska meistaraliðið Bayern München tapaði á heimavelli í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Bayern tók á móti Borussia Mönchengladbach en tapaði 1:2 jafnvel þótt markamaskínan Robert Lewandowski hafi komið Bayern 1:0 yfir á 18. mínútu.

Florian Neuhaus og Stefan Lainer svöruðu fyrir Gladbach fyrir hlé en ekkert var skorað í síðari hálfleik.

Gladbach virðist vera með tak á Bayern í vetur því liðið burstaði Bayern 5:0 í bikarkeppninni fyrir áramót.

Þrátt fyrir tapið er Bayern með níu stiga forystu á toppi deildarinnar, með 43 stig, en Borussia Dortmund, sem er með 34 stig í öðru sæti, sækir Eintracht Frankfurt heim á morgun. Mönchenbladbach er með 22 stig í ellefta sæti deildarinnar og komst með sigrinum fimm stigum frá umspilssæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert