Grét daglega á fyrstu vikum meðgöngunnar

Dagný Brynjarsdóttir á að baki 97 A-landsleiki fyrir Ísland.
Dagný Brynjarsdóttir á að baki 97 A-landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrstu 22 vikur meðgöngunnar grét ég á hverjum einasta degi yfir því að vera ólétt,“ sagði knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir í samtali við Sky Sports á dögunum.

Dagný, sem er þrítug, er samningsbundin West Ham í ensku úrvalsdeildinni en hún á að baki 97 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 32 mörk.

Hún eignaðist sitt fyrsta barn í júní 2018 en hún var þá samningsbundin Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni.

„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hversu góð áhrif sonur minn myndi hafa á knattspyrnuferilinn,“ sagði Dagný.

„Ég vil nýta tímann sem best, þegar að ég er fjarri honum, eins og til dæmis á æfingum og í leikjum ég vil vera í góðu skapi þegar ég kem heim og hitti hann.

Ég var fyrst og fremst knattspyrnukona þegar ég varð ólétt en allt í einu var ég bara ólétt sem var ákveðið sjokk.

Þegar að ég fékk hann fyrst í hendurnar þá var ég ekki einu sinni viss um að ég vildi spila fótbolta aftur. Ég vildi bara vera með honum og eignast annað barn,“ sagði Dagný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert