Óvænt töp Íslendingaliða

Jean-Philippe Mateta skorar sigurmark Crystal Palace gegn Millwall í dag.
Jean-Philippe Mateta skorar sigurmark Crystal Palace gegn Millwall í dag. AFP

Úrvalsdeildarlið Burnley er úr leik í ensku bikarkepnninni í knattspyrnu karla eftir að hafa tapað 1:2 á heimavelli fyrir B-deildarliði Huddersfield Town í þriðju umferð keppninnar í dag.

Jay Rodriguez kom Burnley yfir eftir tæplega hálftíma leik en Josh Koroma og Matthew Pearson svöruðu með tveimur mörkum fyrir Huddersfield seint í leiknum.

Jóhann Berg Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Burnley í dag.

D-deildarlið Hartlepool United gerði sér þá lítið fyrir og sló B-deildarlið Blackpool út. Blackpool tók forystuna snemma leiks en Hartlepool sneri taflinu við og vann 2:1 sigur.

Daníel Leó Grétarsson var ekki í leikmannahópi Blackpool í dag.

Úrvalsdeildarliði Crystal Palace tókst að slá út B-deildarlið Millwall eftir að hafa lent marki undir eftir rúmlega stundarfjórðungs leik, en þá skoraði Benik Afobe.

Snemma í síðari hálfleik skoruðu Michael Olise og Jean-Philippe Mateta fyrir Palace og tryggðu nauman 2:1 sigur.

Jón Daði Böðvarsson var utan leikmannahóps Millwall í dag líkt og í flestum leikjum tímabilsins.

B-deildarlið Middlesbrough lenti svo í stökustu vandræðum með D-deildarlið Mansfield Town. Eftir að Middlesbrough komst í 2:0 snemma leiks virtist allt stefna í afar þægilegan sigur.

Í síðari hálfleik náði Mansfield hins vegar að jafna metin þar sem jöfnunarmarkið kom á 85. mínútu. Sigurmark Middlesbrough reyndist hins vegar sjálfsmark á fimmtu mínútu uppbótartíma og 3:2-sigur lokatölur.

Coventry City lagði Derby County með minnsta mun, 1:0, í B-deildarslag.

Í öðrum B-deildarslag eigast Bristol City og Fulham við. Þar er staðan markalaus og framlenging nýhafin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert