Daníel Leó Grétarsson, miðvörður enska B-deildarfélagsins Blackpool og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, smitaðist af kórónuveirunni á dögunum og var því ekki í leikmannahópi Blackpool þegar liðið var slegið út af D-deildarliðinu Hartlepool United í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í gær.
Þessu greindi Daníel Leó frá í samtali við Fótbolta.net. Þar sagðist hann hugsa sér til hreyfings í þessum mánuði þar sem hann hefur ekki fengið að spila mikið með Blackpool á tímabilinu.
„Tækifærin eru búin að vera af skornum skammti þannig það er ekkert leyndarmál að mig langi að róa á önnur mið. Hvort að af því verði verður að koma í ljós,”sagði Daníel Leó við Fótbolta.net.
Samningur Daníels Leós við Blackpool rennur út í sumar.