Villarreal og Spánarmeistarar Atlético Madrid skildu jöfn, 2:2, í lokaleik helgarinnar í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld.
Ángel Correa kom meisturunum yfir á 10. mínútu en Pau Torres jafnaði á 29. mínútu. Fjórum mínútum fyrir jöfnunarmarkið varði Jan Oblak víti frá Gerard Moreno og örstuttu síðar skoraði Dani Parejo mark sem fékk ekki að standa.
Alberto Moreno, fyrrverandi leikmaður Liverpool, kom Villarreal yfir á 58. mínútu en Geoffrey Kondogbia jafnaði á 67. mínútu og þar við sat. Kondogbia fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma.
Real Madrid er í toppsæti deildarinnar með 49 stig, fimm stigum á eftir Sevilla sem á leik til góða. Sevilla vann 1:0-heimasigur á Getafe fyrr í dag þar sem Rafa Mir gerði sigurmarkið.
Þar á eftir kemur Real Betis í þriðja sæti með 34 stig, en liðið gerði 1:1-jafntefli við Rayo Vallecano fyrr í dag.
Atlético Madrid er í fjórða sæti með 33 stig og Real Sociedad í fimmta með 33 stig. Barcelona er í sjötta með 32 stig og Rayo Vallecano í sjöunda með 31 stig. Aðeins þrjú stig skilja því þriðja og sjöunda sætið að.