Ástralski knattspyrnumaðurinn Josh Cavallo, eini spilandi atvinnumaðurinn sem er opinberlega kominn út úr skápnum, varð fyrir níði vegna kynhneigðar sinnar í leik í áströlsku A-deildinni í gær.
Cavallo, sem er 22 ára gamall vinstri bakvörður, leikur með Adelaide United og var í byrjunarliðinu í jafntefli gegn Melbourne Victory.
Á meðan leiknum stóð hrópuðu stuðningsmenn Melbourne ókvæðisorð þegar hann var með boltann og sneru þau að kynhneigð hans.
Cavallo kom út úr skápnum í október síðastliðnum og er sem áður segir eini karlkyns atvinnumaðurinn í knattspyrnu sem er opinberlega samkynhneigður og er að spila, en nokkur fjöldi leikmanna hefur komið út úr skápnum eftir að atvinnumannaferli þeirra lýkur.
„Ég er orðlaus. Þetta ætti ekki að viðgangast og við þurfum að gera meira til þess að draga þetta fólk til ábyrgðar. Hatrið mun aldrei sigra.
Ég mun aldrei biðjast afsökunar á því að lifa lífi mínu samkvæmt mínum eigin sannleik og hver ég er utan fótboltans.
Til alls unga fólksins sem hefur orðið fyrir níði á grundvelli kynhneigðar ykkar, berið höfuðið hátt og haldið áfram að eltast við drauma ykkar. Þið megið vita það að það er ekkert pláss fyrir svona í fótbolta,“ sagði Cavallo eftir leikinn í gær.
Hann bætti því við að samfélagsmiðlar á við Instagram og Twitter þyrftu að gera meira til þess að koma í veg fyrir að fólk fái send ljót skilaboð.