Afríkumótið í knattspyrnu karla hófst í dag með upphafsleik heimamanna í Kamerún gegn Búrkína Fasó í A-riðlinum. Kamerún hafði að lokum 2:1 sigur í hörkuleik.
Búrkína Fasó náði forystunni á 24. mínútu. Bertrand Traoré gaf þá fyrir frá hægri, Gustavo Sangaré var aleinn á fjærstönginni, André Onana í marki Kamerún missti af boltanum og Sangaré stýrði boltanum glæsilega með innanfótarskoti á lofti upp í nærhornið.
Á 36. mínútu virtist Traoré brjóta á André-Frank Zambo Anguissa innan vítateigs en ekkert var dæmt. Eftir langa og stranga athugun í VAR var hins vegar loks dæmd vítaspyrna.
Fyrirliði Kamerúns, Vincent Aboubakar, steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi á 40. mínútu.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks var svo dæmd önnur vítaspyrna. Að þessu sinni þrumaði Issoufou Dayo, miðvörður Búrkína Fasó, Nouhou Tolo, miðvörð Kamerún, niður þegar sá síðarnefndi var að gefa fyrir innan teigs.
Aftur steig Aboubakar á punktinn og aftur skoraði hann af fádæma öryggi.
Staðan því 2:1, heimamönnum í Kamerún í vil, í hálfleik.
Eftir tæplega klukkutíma leik kom Nicolas Ngamaleu, vængbakvörður Kamerún, boltanum í netið en eftir afar langvinna athugun VAR var ákveðið að dæma markið af vegna rangstöðu þar sem skot Ngamaleu fór af Aboubakar, sem var fyrir innan, og þaðan í netið.
Fleiri lögleg mörk voru hins vegar ekki skoruð og naumur sigur heimamanna því niðurstaðan.
Kamerún er þar með á toppi A-riðils með þrjú stig.
Eþíópía og Grænhöfðaeyjar eru einnig í riðlinum og mætast klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.