Juventus vann í kvöld 4:3-útisigur á Roma í ótrúlegum leik í ítölsku A-deildinni í fótbolta.
Enski framherjinn Tammy Abraham kom Roma yfir á 11. mínútu en Paulo Dybala jafnaði á 18. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.
Roma byrjaði af miklum krafti í seinni hálfleik því Henrikh Mkhitaryan kom liðinu yfir á 48. mínútu og Lorenzo Pellegrini breytti stöðunni í 3:1 á 53. mínútu.
Juventus neitaði hinsvegar að gefast upp því Manuel Locatelli minnkaði muninn í 3:2 á 70. mínútu og tveimur mínútum síðar jafnaði Dejan Kulusevski. Mattia De Sciglio fullkomnaði endurkomuna er hann kom Juventus yfir á 77. mínútu.
Roma fékk gullið tækifæri til að jafna á 83. mínútu er liðið fékk víti og Matthijs de Light var vikið af velli. Wojciech Szczesny í marki Juventus varði hisnvegar frá Pellegrini og Juventus fagnaði ótrúlegum sigri.
Juventus er í fimmta sæti deildarinnar með 38 stig og Roma, sem José Mourinho stýrir, er í áttunda sæti með 32 stig.