Bjarki Steinn Bjarkason varð í dag sjöundi Íslendingurinn frá upphafi til að spila í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í karlaflokki.
Hann kom inn á sem varamaður hjá Venezia þegar liðið tapaði 0:3 fyrir AC Milan á heimavelli en Bjarka var skipt inn á sem varamanni á 88. mínútu leiksins.
Bjarki Steinn lék tíu leiki með Venezia í B-deildinni á síðasta tímabili og hefur verið á varamannabekknum í flestum leikja liðsins í vetur en fékk nú fyrsta tækifærið.
Þeir sex sem hafa spilað á undan Bjarka Steini í deildinni eru eftirtaldir:
Albert Guðmundsson lék 14 leiki og skoraði tvö mörk fyrir AC Milan keppnistímabilið 1948-49.
Emil Hallfreðsson hefur leikið 177 leiki með Reggina, Verona, Frosinone og Udinese í deildinni, frá 2007 til 2019, og skorað fimm mörk. Hann leikur nú með Virtus Verona í C-deildinni.
Birkir Bjarnason hefur leikið 51 leik með Pescara, Sampdoria og Brescia í deildinni, frá 2012 til 2020, og skorað tvö mörk.
Hörður Björgvin Magnússon lék 12 leiki með Cesena í deildinni tímabilið 2014-15.
Andri Fannar Baldursson hefur leikið 15 leiki með Bologna í deildinni frá 2019 en hann er í láni þaðan hjá FC Köbenhavn.
Arnór Sigurðsson hefur leikið sex leiki með Venezia í deildinni í vetur en hann er í láni þar frá CSKA Moskva.