Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir að liðið hafi átt í miklum vandræðum en átt skilið að vinna C-deildarlið Morecambe í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í dag.
„Markmið okkar var að komast í næstu umferð og við unnum leikinn. Við áttum svo sannarlega í miklum vandræðum fyrsta hluta leiksins og fengum á okkur mark úr föstu leikatriði,“ sagði Conte í samtali við BBC eftir leik.
Morecambe náði forystunni á 33. mínútu og hélt henni allt þar til á 74. mínútu þegar Harry Winks jafnaði metin.
Lucas Moura og Harry Kane höfðu báðir komið inn á sem varamenn skömmu fyrir jöfnunarmarkið og skoruðu sitt hvort markið undir loks leiks og tryggðu Tottenham þannig 3:1 sigur.
„Við áttum skilið að vinna því maður verður að sýna styrk sinn í leikjum sem þessum. Þeir vörðust á ellefu leikmönnum og það er eðlilegt í svona leikjum en það er mikilvægt að finna lausnirnar,“ bætti Conte við.