„Vil ekki koma til Noregs í handjárnum"

Babacar Sarr (t.v.) í leik með Selfossi árið 2012.
Babacar Sarr (t.v.) í leik með Selfossi árið 2012. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Senegalski knattspyrnumaðurinn Babacar Sarr, sem hefur verið eftirlýstur af Alþjóðalögreglunni vegna ásakana um nauðganir í Noregi, tjáði sig í fyrsta sinn í fjölmiðli vegna málsins í dag.

Sarr, sem lék með Selfossi í næstefstu deild árið 2011 og úrvalsdeildinni árið 2012, var sýknaður af ákæru um nauðgun árið 2018. Málinu var áfrýjað en Sarr flúði Noreg áður en áfrýjunin var tekin fyrir.

Síðan þá hefur ekkert spurst til Sarr, þar til nú, en hann kveðst reiðubúinn að halda til Noregs til að ljúka málinu. „Ég hef viljað koma aftur til Noregs frá byrjun til að ljúka málinu. Ég vil koma sjálfviljugur til Noregs en ekki í handjárnum. Ég vil ferðast frá heimalandinu til Noregs og ljúka þessu máli. Ég er ekki glæpamaður og það verð ég aldrei,“ er haft eftir Sarr í Romsdals Budstikke í dag.

Sonni Ragnar Nattestad í leik með Fylki.
Sonni Ragnar Nattestad í leik með Fylki. mbl.is/Eggert

Færeyski landsliðsmaðurinn Sonni Nattestad, fyrrverandi leikmaður Fylkis og FH hér á landi, blandaðist í málið en þeir voru samherjar hjá Molde í nokkur ár. „Málinu var fyrst frestað því Sonni Nattestad komst ekki, því var svo aftur frestað þegar lögfræðingurinn minn komst ekki. Þegar taka átti upp málið á ný var ég kominn til Senegal og dvalarleyfið mitt útrunnið,“ bætti Sarr við.

Eft­ir veruna hjá Selfossi færði Sarr sig yfir til Nor­egs þar sem hann lék fyrst með Start, þá Sogn­dal og svo Molde frá 2016 til 2019. Þegar Sarr var leikmaður Molde hrönnuðust upp ásak­an­ir nokk­urra kvenna í hans garð um nauðgan­ir.

Samn­ingi Sarr við Molde var rift í janú­ar árið 2019 og samdi hann þá við rússneska liðið Jenisei mánuði síðar. Eftir það lék hann með Damac í Sádi-Arabíu en eftir að hann yfirgaf Damac hefur ekkert spurst til hans.

Sarr lék með Molde undir stjórn Ole Gunnars Solskjærs.
Sarr lék með Molde undir stjórn Ole Gunnars Solskjærs. http://www.sogndalfotball.no/

John Christian Elden, lögfræðingur Kamillu Visnes sem kærði Sarr fyrir nauðgun, trúir því ekki svo glatt að Sarr sé á leiðinni til Noregs á ný. „Ég trúi því þegar ég sé það. Hann gaf sama loforð áður en hann flúði til Rússlands og Sádi-Arabíu. Hann verður að fara fyrir dómstóla vegna ákærunnar,“ sagði Elden við VG.

Visnes tók undir orð lögræðingsins. „Ég hef enga trú á að hann komi aftur til Noregs,“ sagði hún við VG en vildi annars ekki tjá sig frekar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert