Berglind Björg Þorvaldsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er gengin til liðs við norska meistaraliðið Brann og hefur samið við félagið til tveggja ára.
Hún kemur til Brann frá Hammarby í Svíþjóð þar sem hún lék í úrvalsdeildinni seinni hluta síðasta keppnistímabils.
Brann er formlega séð nýtt félag í kvennaknattspyrnunni en tók í vetur yfir nágrannaliðið Sandviken sem varð norskur meistari með nokkrum yfirburðum á síðasta ári. Brann er því á leið í Meistaradeild kvenna síðar á þessu ári.
„Brann er besta liðið í Noregi og þegar haft var samband þaðan var ég ekki lengi að hugsa mig um. Ég er mjög ánægð með að vera komin hingað og vil taka þátt í að gera liðið enn betra og taka næsta skref,“ sagði Berglind við heimasíðu félagsins.
Berglind verður þrítug í þessum mánuði en hún hefur leikið 57 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún hefur áður leikið með Le Havre í Frakklandi, AC Milan og Verona á Ítalíu og PSV Eindhoven í Frakklandi, ásamt því að skora 137 mörk í 190 leikjum í íslensku úrvalsdeildinni, þar af 105 mörk í 141 leik fyrir Breiðablik.