Bjarki Steinn Bjarkason, leikmaður Venezia í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu, er líklega á leið í lán hjá C-deildarliði þar í landi.
Björn Már Ólafsson fjölmiðlamaður og sérfræðingur um ítalska fótboltann, segir þetta á Twitter og segir að Bjarki fari líklegast til Catanzaro á Suður-Ítalíu og leiki þar út tímabilið.
Bjarki Steinn er sitt annað tímabil í röðum Venezia og fékk á dögunum sitt fyrsta tækifæri með liðinu í A-deildinni.
Catanzaro er í suðurriðli ítölsku C-deildarinnar, C-riðlinum, og er þar í sjöunda sæti af tuttugu liðum.
Tveir Íslendingar leika í C-deildinni en Emil Hallfreðsson leikur með Virtus Verona í A-riðlinum og Óttar Magnús Karlsson er í láni frá Venezia hjá Siena sem leikur í B-riðlinum.
Bjarki Steinn Bjarkason samkvæmt mínum heimildum líklegast á leið til Catanzaro🔴🟡 á láni út tímabilið. Félagið frá Suður-Ítalíu leikur í C-deild. Nánar um Catanzaro í þætti vikunnar af ítalska boltanum - þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að spila™️
— Björn Már Ólafsson (@bjornmaro) January 11, 2022