Síerra Leóne og Alsír gerðu í dag markalaust jafntefli í fyrsta leik E-riðils Afríkumótsins í knattspyrnu sem nú fer fram í Kamerún.
Alsír er ríkjandi Afríkumeistari og réði lögum og lofum, þá sérstaklega í síðari hálfleik, í leiknum í dag.
Þrátt fyrir að Alsír hafi skapað sér fjölda frábærra færa í síðari hálfleiknum kom allt fyrir ekki.
Um var að ræða fyrsta jafntefli mótsins til þessa og kom það í sjöunda leiknum. Allir hinir sex leikirnir á Afríkumótinu höfðu endað með eins marks sigrum.
Steven Caulker átti stórkostlegan leik í miðri vörn Síerra Leóne í fyrsta landsleik sínum fyrir þjóðina. Félagi hans í miðri vörninni, fyrirliðinn Umaru Bangura, lék sömuleiðis frábærlega líkt og markvörðurinn Mohamed Kamara.
Kwame Quee, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, lék þá vel á miðju Síerra Leóne. Lék hann allan leikinn í sínum 29. landsleik.
Miðbaugs-Gínea og Fílabeinsströndin eru einnig í E-riðlinum og mætast á morgun.