Kwame Quee, kantmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, er í byrjunarliði Síerra Leóne þegar liðið mætir ríkjandi Afríkumeisturum Alsír í fyrsta leik E-riðils Afríkumótsins í Kamerún í dag.
Quee, sem er 25 ára gamall, á 28 landsleiki að baki fyrir Síerra Leóne og hefur skorað í þeim þrjú mörk. 29. landsleikurinn kemur í dag þegar leikurinn hefst klukkan 13.
Hann er samkvæmt uppstillingu á miðjunni hjá liðinu.
Þá byrjar Steven Caulker, fyrrverandi leikmaður Tottenham Hotspur, Liverpool, Cardiff City, QPR og Southampton í ensku úrvalsdeildinni, í vörninni og spilar sinn fyrsta landsleik fyrir Síerra Leóne.
Hann hafði áður leikið einn A-landsleik fyrir England, vináttulandsleik gegn Svíþjóð þar sem hann skoraði eitt marka Englands.
Riyad Mahrez, vængmaður Englandsmeistara Manchester City, er stærsta stjarna Alsír og er á sínum stað í byrjunarliðinu.