Knattspyrnumaðurinn Finnur Tómas Pálmason og sænska félagið Norrköping hafa komist að samkomulagi um að hann yfirgefi félagið. Norrköping greindi frá á heimasíðu sinni í kvöld.
Finnur kom til Norrköping á síðasta ári en lék með KR að láni síðasta sumar og spilaði aldrei deildarleik með sænska liðinu, en kom við sögu í tveimur bikarleikjum.
Finnur, sem gæti leikið sinn fyrsta landsleik gegn Angóla eða Suður-Kóreu í vikunni, hefur leikið 41 leik með KR í efstu deild og skorað í þeim eitt mark. Hann hefur einnig leikið 12 leiki með Þrótti úr Reykjavík í 1. deildinni.