Malí lagði Túnis að velli, 1:0, á Afríkumóti karla í fótbolta í Kamerún í dag í leik þar sem dómarinn frá Sambíu var í aðalhlutverki.
Ibrahima Koné skoraði sigurmark Malí úr vítaspyrnu á 48. mínútu leiksins. Túnis fékk vítaspyrnu seint í leiknum en nýtti hana ekki.
Sikazwe dómari var síðan heldur betur áberandi á lokakaflanum en hann byrjaði á því að flauta leikinn af á 85. mínútu. Hann áttaði sig greinilega strax á mistökunum og lét leikinn halda áfram en sýndi síðan Malímanninum El Bilal Touré rauða spjaldið fyrir litlar sakir.
En þegar vallarklukkan sýndi 89,47 mínútur flautaði Sikazwe leikinn af í annað sinn, við hávær mótmæli Túnisbúa sem töldu sig svikna um talsverðan uppbótartíma.