Real Madrid leikur til úrslita í Meistarakeppni Spánar í fótbolta eftir 3:2-sigur á erkifjendunum í Barcelona í framlengdum undanúrslitaleik í Sádi-Arabíu í kvöld.
Vinícius Júnior kom Real Madrid í forystu á 25. mínútu en Luuk de Jong jafnaði á 41. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1.
Real komst aftur yfir þegar Karim Benzema skoraði á 72. mínútu en varamaðurinn Ansi Fati jafnaði fyrir Barcelona á 83. mínútu og því var framlengt.
Federico Valverde skoraði að lokum sigurmarkið í framlengingunni á 98. mínútu og tókst Barcelona ekki að jafna í þriðja skipti.
Real mætir annaðhvort Athletic Bilbao eða Atlético Madrid í úrslitaleik.