Inter Mílanó er meistari meistaranna í ítalska fótboltanum eftir 2:1-sigur á Juventus í framlengdum leik á heimavelli fyrrnefnda liðsins. Sigurmarkið kom í uppbótartíma í framlengingu.
Bikarmeistarar Juventus komust yfir gegn Ítalíumeisturunum þegar Weston McKennie skoraði á 25. mínútu. Tíu mínútum síðar jafnaði Lautaro Martínez úr víti og var staðan í hálfleik 1:1.
Ekkert mark var skorað í seinni hálfleik og því varð að framlengja. Þar var markalaust þangað til Alexis Sánchez skoraði sigurmarkið þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma og þar við sat.