Liverpool og Arsenal gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu karla á Anfield í Liverpool í kvöld. Arsenal lék einum færri í tæpar 70 mínútur.
Engin almennileg færi litu dagsins ljós í fyrri hálfleik en það sem bar hæst í hálfleiknum var þegar Granit Xhaka fékk beint rautt spjald á 24. mínútu.
Andrew Robertson þrumaði boltanum þá fram á Diogo Jota sem var að sleppa einn í gegn. Hann náði snertingunni, Xhaka sparkaði í magann á honum og fékk rautt spjald þar sem hann var aftasti maður.
Liverpool var meira með boltann en leikmenn Arsenal voru þéttir fyrir og því markalaust í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn þróaðist á svipaðan hátt og sá fyrri. Liverpool hélt boltanum og reyndi að opna vörn Arsenal en hafði ekki erindi sem erfiði.
Arsenal fékk raunar eitt besta færi leiksins á 72. mínútu. Kieran Tierney átti þá góða fyrirgjöf frá vinstri og fann Bukayo Saka í vítateignum, hann náði ögn þungri snertingu og svo skoti en Alisson í marki Liverpool var fljótur út á móti og varði vel.
Liverpool skapaði sér áfram ekkert að ráði, eða allt þar til á 90. mínútu þegar Takumi Minamino skaut yfir fyrir opnu marki í kjölfar misskilnings á milli Aaron Ramsdale og Nuno Tavares. Langsamlega besta færi leiksins.
Þrátt fyrir síðbúna pressu frá Liverpool undir lok leiks reyndist markalaust jafntefli niðurstaðan.
Liðin mætast í síðari leiknum í undanúrslitum deildabikarsins á Emirates-vellinum í Lundúnum eftir slétta viku.