Kýpverska knattspyrnufélagið Apollon Limassol hefur gert Rosenborg í Noregi tilboð í varnarmanninn Hólmar Örn Eyjólfsson.
Frétt um áhuga Apollon á Hólmari birtist á 433.is í dag og mbl.is hefur fengið það staðfest að tilboð hafi komið í Hólmar í gær og það sé til skoðunar.
Hólmar sneri aftur til Rosenborg sumarið 2020, eftir að hafa orðið þrisvar norskur meistari með liðinu á árunum 2014-2016, en lék í Ísrael og Búlgaríu í millitíðinni.
Apollon er í þriðja sæti á Kýpur þegar tímabilið þar er um það bil hálfnað. Félagið hefur verið eitt sterkasta lið Kýpur um árabil og náð góðum árangri í Evrópumótunum, var m.a. í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrir þremur árum og vann þá bæði Lazio og Marseille.