Marokkó tryggði sér í dag sæti í 16-liða úrslitum Afríkumótsins í knattspyrnu þegar liðið lagði Kómorós í C-riðlinum.
Selim Amallah kom Marokkó yfir eftir rétt rúmlega stundarfjórðungs leik þegar liðsfélagar hans gerðu orrahríð að marki Kómorós.
Varnarmenn Komórós komust þrisvar í veg fyrir skot Marokkóbúa en Amallah kom boltanum loks í netið í gegnum þvöguna í fjórðu skottilraun.
Á 83. mínútu fékk Marokkó vítaspyrnu. Á vítapunktinn steig Youssef En-Nesyri en Salim Ben Boina, sem átti stórleik í marki Kómorós, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.
Fimm mínútum síðar renndi Amallah svo boltanum til Zakaria Aboukhlal sem lagði boltann í hornið framhjá Ben Boina.
2:0 því lokatölur og Marokkó öruggt með sæti í 16-liða úrslitum keppninnar enda með fullt hús stiga, sex, að loknum tveimur leikjum.
Malaví vann á sama tíma mikilvægan sigur gegn Simbabve í B-riðlinum.
Ishmael Wadi kom Simbabve yfir á 38. mínútu en Gabadinho Mhango jafnaði metin fyrir Malaví skömmu fyrir leikhlé.
Eftir tæplega klukkutíma leik skoraði Mhango svo sigurmark Malaví og tryggði liðinu dýrmæt þrjú stig, en liðið er í þriðja sæti B-riðils, einu stigi á eftir bæði Senegal og Gíneu.