Vágner Love, fyrrum landsliðsmaður Brasilíu, gæti verið á leið til danska liðsins Midtjylland.
Með Midtjylland spilar Brasilíumaðurinn Evander, en faðir hans er umboðsmaður Love. Talið er að hinn 37 ára gamli Love, sem spilaði síðast með liði Kairat í Kasakstan, skrifi undir samning í næstu viku og eigi að hjálpa til með markaskorun hjá danska liðinu.
Love er einstaklega litríkur leikmaður sem hefur spilað með liðum eins og Mónakó, CSKA Moskvu, Besiktas og Alanyaspor ásamt liðum í heimalandinu. Hann spilaði 20 landsleiki frá árunum 2004-2007 og skoraði í þeim fjögur mörk.
Með Midtjylland leikur markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson og verður hann einn af samherjum Love gangi félagsskiptin í gegn.