Portúgalinn Nani, sem gekk á dögunum í raðir Venezia í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu, kom inn á sem varamaður í dag og lagði upp jöfnunarmark sinna manna í 1:1 jafntefli gegn Empoli.
Nani sem gerði garðinn frægan með Manchester United á Englandi skrifaði undir eins og hálfs árs samning við Venezia á föstudaginn og leikur því með liðinu til ársins 2023.
Þessi 35 ára gamli Portúgali kom inn á sem varamaður á 72. mínútu og lagði upp jöfnunarmark David Okereke tæpri mínútu síðar. Áður hafði Szymon Zurkowski komið Empoli yfir.
Arnór Sigurðsson sat allan leikinn á varamannabekk Venezia sem er í harðri fallbaráttu. Liðið er nú í 17. sæti með 18 stig, tveimur stigum frá fallsæti. Empoli er í öllu þægilegri málum í 11. sæti með 29 stig.