Miðbaugs-Gínea gerði sér lítið fyrir og lagði ríkjandi Afríkumeistara Alsír þegar liðin mættust í E-riðli Afríkumótsins í knattspyrnu í Kamerún í gærkvöldi.
Miðvörðurinn Esteban Obiang skoraði sigurmarkið fyrir Miðbaugs-Gíneu í 1:0-sigri. Markið kom á 70. mínútu leiksins.
Alsír, sem fyrirfram var talið eitt sigurstranglegasta lið mótsins, á nú í mikilli hættu á að komast ekki áfram í 16-liða úrslit þess.
Liðið vermir botninn í E-riðlinum með aðeins eitt stig og hefur ekki auðnast að skora til þessa eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Kwame Quee og félaga í Síerra Leóne í fyrstu umferð.
Í lokaumferð riðilsins mætir Alsír svo toppliði hans, Fílabeinsströndinni, og því ærið verk að vinna fyrir meistarana.