Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson er genginn til liðs við norska knattspyrnufélagið Viking. Þetta tilkynnti hans fyrrverandi félag Brentford á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Patrik, sem er 21 árs gamall, þekkir vel til hjá norska úrvalsdeildarfélaginu en hann lék með liðinu á láni frá Brentford á síðustu leiktíð.
Markvörðurinn gekk til liðs við Brentford frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki sumarið 2018 og á að baki einn aðalliðsleik fyrir félagið.
Hann hefur einnig leikið með Southend United á Englandi og Viborg og Silkeborg í Danmörku á láni á tíma sínum hjá Brentford.
Patrik hefur verið viðloðandi íslenska landsliðshópinn undanfarin ár en á þó ennþá eftir að spila sinn fyrsta A-landsleik.