Marokkó tryggði sér sigur í C-riðli Afríkumótsins í knattspyrnu með 2:2-jafntefli gegn Gabon í Kamerún í kvöld.
Það voru þeir Sofiane Boufal og Achraf Hakimi sem skoruðu mörk Marokkó sem lenti tvívegis undir í leiknum.
Marokkó endaði í efsta sæti riðilsins með 7 stig en Gabon hafnaði í öðru sæti með 5 stig.
Kómoreyjar höfnuðu í þriðja sæti riðilsins með 3 stig og eiga möguleika á því að fara áfram í sextán-liða úrslitin sem eitt fjögurra liða með bestan árangur í þriðja sæti.
Gana er hins vegar úr leik eftir að hafa endað í neðsta sæti riðilsins með einungis 1 stig í þremur leikjum.