Senegal er komið áfram í sextán-liða úrslit Afríkumótsins í knattspyrnu eftir markalaust jafntefli gegn Malaví í B-riðli keppninnar í Kamerún í dag.
Senegal endaði í efsta sæti B-riðils með 5 stig en Gínea, sem tapaði 1:2 gegn Zimbabwe á sama tíma, hafnaði í öðru sæti riðilsins með 4 stig.
Senegal og Gínea eru því komin áfram í útsláttarkeppnina en Malaví, sem endaði með 4 stig, á ennþá möguleika á því að fara áfram sem eitt af þeim fjórum liðum með bestan árangur í þriðja sæti.
Liverpool-leikmennirnir Sadio Mané og Naby Keita eru því ekki á leið aftur til Englands strax en Mané leikur með Senegal og Keita með Gíneu. Báðir eru þeir fyrirliðar sinna landsliða.