Forsvarsmenn enska knattspyrnufélagsins Shrewsbury Town hafa tekið ákvörðun um að setja tvo stuðningsmenn félagsins í átta ára bann frá því að fara á leiki þess eftir að þeir gerðust uppvísir að því að syngja níðsöngva um fórnarlömb Hillsborough-slyssins.
Hluti stuðningsmanna Shrewsbury náðist á myndband fyrir leik liðsins gegn Liverpool á Anfield í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar þar sem þeir sungu um slysið á Hillsborough-vellinum í Sheffield sem dró alls 97 stuðningsmenn Liverpool til dauða.
Myndbandið fór í talsvert mikla dreifingu á samfélagsmiðlum og eftir að hafa rannsakað málið er Shrewsbury búið að banna þessa tvo stuðningsmenn. Gætu þeir orðið fleiri þar sem rannsókn félagsins er enn í fullum gangi.
„Sem félag sættum við okkur ekki við og munum ekki þola neina hegðun sem brjóta í bága við siðareglur stuðningsmanna okkar og dregur okkar góða nafn í svaðið,“ sagði í yfirlýsingu frá Shrewsbury.