Iker Muniain tryggði Athletic Bilbao sigur gegn Barcelona í sextán liða úrslitum spænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í Bilbao í kvöld.
Leiknum lauk með 3:2-sigri Athletic Bilbao en Muniain kom Bilbao yfir strax á 2. mínútu áður en Ferrán Torres jafnaði metin fyrir Barcelona á 20. mínútu.
Inigo Martínez kom Bilbao yfir á nýjan leik á 86. mínútu og virtist allt stefna í sigur Bilbao þegar Pedri jafnaði metin fyrir Barcelona í uppbótartíma.
Muniain skoraði svo sigurmark leiksins á 105. mínútu framlengingarinnar úr vítaspyrnu og þar við sat.
Athletic Bilbao er því komið áfram í 8-liða úrslit keppninnar en Barcelona er úr leik.