Liverpool er búið að tryggja sér sæti í úrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu eftir að hafa borið sigurorð af Arsenal, 2:0, á Emirates-vellinum í Lundúnum í síðari leik undanúrslita keppninnar í kvöld. Diogo Jota var hetja Liverpool og skoraði bæði mörk liðsins.
Arsenal hóf leikinn af miklum krafti og var nálægt því að taka forystuna strax á fimmtu mínútu þegar Caoimhin Kelleher varði frábært skot Alexandre Lacazette beint úr aukaspyrnu með naumindum í þverslánna.
Heimamenn héldu góðri pressu en það voru hins vegar gestirnir í Liverpool sem náðu forystunni með sínu fyrsta skoti í leiknum.
Diogo Jota fékk þá boltann frá Trent Alexander-Arnold, tók á rás, fór illa með Takehiro Tomiyasu, fór því næst framhjá Ben White og náði lúmsku skoti framhjá Aaron Ramsdale, nokkurn veginn á mitt markið, en Ramsdale var á leiðinni í hitt hornið og náði því ekki til boltans.
Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og leiddi Liverpool því með einu marki í leikhléi.
Síðari hálfleikurinn fór svo fjörlega af stað.
Á 49. mínútu slapp Lacazette einn í gegn eftir laglega sendingu Albert Sambi Lokonga en skot Lacazette á lofti fór yfir markið.
Tveimur mínútum síðar fór Jota mjög illa með White, lagði boltann út í vítateig á hinn 17 ára gamla Kaide Gordon sem þrumaði yfir markið af stuttu færi.
Eftir tæplega klukkutíma leik skallaði Ibrahima Konaté, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, í stöngina eftir hornspyrnu Alexander-Arnold frá hægri.
Varamaðurinn Takumi Minamino fékk svo gott færi í vítateignum á 69. mínútu en laust skot hans fór í Gabriel sem stóð rétt fyrir framan marklínuna.
Á 77. mínútu tvöfaldaði Liverpool forystu sína.
Jota slapp þá einn í gegn eftir frábæra langa sendingu frá Alexander-Arnold, tók laglega við boltanum með bringunni og lyfti honum snyrtilega yfir Ramsdale.
Aðstoðardómarinn dæmdi markið upphaflega af vegna rangstöðu en VAR leiðrétti mistökin þar sem Jota var sannanlega ekki rangstæður.
Á 90. mínútu fékk varamaðurinn Thomas Partey sitt annað gula spjald á innan við þremur mínútum og þar með rautt eftir að hafa aðeins komið inn á 16 mínútum fyrr.
Leikurinn fjaraði svo út og 2:0 sigur, og sömuleiðis samanlagður sigur eftir markalaust jafntefli í fyrri leik liðanna, staðreynd.
Liverpool mætir Chelsea í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley þann 27. febrúar næstkomandi.