Knattspyrnumaðurinn Böðvar Böðvarsson hefur skrifað undir samning við sænska B-deildarfélagið Trelleborg. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Böðvar, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir tveggja ára samning við félagið en hann kemur til Trelleborg frá Helsingborg þar sem hann lék á síðustu leiktíð.
Vinstri bakvörðurinn var í stóru hlutverki hjá Helsingborg á síðustu leiktíð þegar liðið tryggði sér sæti í sænsku úrvalsdeildinni en hann fékk ekki áframhaldandi samning hjá Helsingborg.
Böðvar er uppalinn hjá FH í Hafnarfirði en hann hefur einnig leikið með Midtjylland í Danmörku og Jagiellonia í Póllandi á atvinnumannferli sínum.
Alls á hann að baki 73 leiki í efstu deild hér á landi þar sem hann hefur skorað eitt mark og þá á hann að baki 5 A-landsleiki fyrir Ísland.
Trelleborg hafnaði í sjöunda sæti sænsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð en keppni í deildinni hefst að nýju 2. apríl.