Bayern München átti ekki í miklum erfiðleikum með að vinna 4:1-útisigur á Herthu Berlín í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld og endurheimta í leiðinni sex stiga forskot á toppi deildarinnar.
Corentin Tolisso og Thomas Müller komu Bayern í 2:0 í fyrri hálfleik og þeir Leroy Sané og Serge Gnabry breyttu stöðunni í 4:0 í seinni hálfleik áður en Jurgen Ekkelenkamp klóraði í bakkann fyrir Herthu Berlín.
Bayern er í toppsæti deildarinnar með 49 stig, sex stigum á undan Dortmund sem er í öðru sæti.