Í það minnsta sex manns létust og tugir slösuðust í troðningi fyrir utan Olembe-leikvanginn í Yaoundé, höfuðborg Kamerún, í kvöld áður en leikur Kamerún og Kómoroseyja í sextán liða úrslitum Afríkumótsins í knattspyrnu hófst.
Leyft var að vera með 48 þúsund manns á leikvanginum, sem tekur 60 þúsund manns, en af sóttvarnaástæðum var ekki selt í öll sæti. Samkvæmt yfirvöldum í Yaoundé mættu rúmlega 50 þúsund manns á svæðið og troðningur varð þegar fólk reyndi að komast inn á leikvanginn.
Talsmenn sjúkrahúss í borginni sögðu að í það minnsta 40 manns hefðu verið flutt þangað, sumir mjög illa slasaðir.
Kamerún vann leikinn, 2:1, og er komið í átta liða úrslit.