Gianni Infantino, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla á samráðsfundi Evrópuþingsins á dögunum.
Infantino vinnur nú að því ásamt öðrum sendiherrum FIFA að sannfæra aðildarþjóðir knattspyrnusambandsins um að halda eigi heimsmeistaramótið á tveggja ára fresti.
Tillagan hefur ekki farið vel í aðrar knattspyrnuþjóðir, sérstaklega innan Evrópu og Suður-Ameríku.
„Þetta snýst ekki um að halda heimsmeistaramótið á tveggja ára fresti heldur snýst þetta um framtíð fótboltans,“ sagði Infantino.
„Fótbolti snýst um tækifæri, von og landsliðin okkar. Fótbolti er fyrir alla, ekki bara Evrópuþjóðirnar. Fótboltinn gæti verið rétta leiðin til þess að sameina heiminn.
Við þurfum að gefa fólki frá Afrík tækifæri svo það þurfi ekki að ferðast yfir Miðjarðahafið í leit að betra lífi, sem oftast endar með dauðsföllum á sjó.
Við þurfum að finna leiðir til þess að gefa þjóðum frá öðrum heimsálfum sömu tækifæri og við fáum. Kannski er HM á tveggja ára fresti ekki rétta svarið en það er ein leið,“ bætti Infantino við.
Þessi ummæli Infantino hafa verið gagnrýnd og Ronan Evain, framkvæmdastjóri stuðningsmannaliða í Evrópu, lét forsetann heyra það í samtali við Guardian.
„Hversu lágt getur einn maður lagst? Að nota dauðsföll á Miðjarðahafi til þess að selja hugmyndir sínar er eins lágkúrulegt og það verður,“ sagði Evain.