Enska knattspyrnufélagið Blackpool staðfesti í dag að varnarmaðurinn Daníel Leó Grétarsson væri farinn til Slask Wroclaw í Póllandi.
Daníel kom til Blackpool frá Aalesund í Noregi í október 2020 og tók þátt í að fara með liðinu upp í ensku B-deildina. Hann hefur ekki fengið mörg tækifæri í vetur, auk þess að glíma við meiðsli.
Daníel fékk þó tækifæri með íslenska landsliðinu á meðan hann var leikmaður Blackpool og lék fjóra síðustu leiki þess á árinu 2021.
Slask er í tíunda sæti af átján liðum í pólsku úrvalsdeildinni þegar keppni þar er hálfnuð, 19 umferðum lokið af 38. Fyrsti leikur liðsins eftir vetrarfríið er gegn Lechia Gdansk á útivelli annan laugardag, 5. febrúar.
Á heimasíðu Slask kemur fram að samningur Daníels við félagið sé til ársins 2025.
„Daníel er fótboltamaður sem passar okkur fullkomlega. Við vorum að leita að liprum leikmanni sem væri ekki hræddur við að sækja en um leið með varnarskyldur sínar í fyrsta sæti. Daníel hefur sýnt í landsleikjum Íslands og í ensku B-deildinni að hann er tilbúinn í hörkuleiki, er fljótur og ekki smeykur í návígjum. Þetta var ekki auðvelt en ég er ánægður með að við skyldum fá Daníel því hann mun auka samkeppnina í varnarlínu okkur," segir Dariusz Sztylka, íþróttastjóri Śląsk Wrocław, á heimasíðunni.
Daníel lék með meistaraflokki Grindavíkur frá 2011 til 2014 en með Aalesund frá 2015 til 2020.