Íran varð í dag fyrsta Asíuþjóðin til að tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti karla í Katar sem fram fer í nóvember og desember á þessu ári.
Sjöunda umferðin af tíu í úrslitariðlunum tveimur í Asíu er leikin í dag en með sigri gegn nágrönnum sínum frá Írak, 1:0, í Teheran í dag eru Íranir komnir í lokakeppni HM í þriðja skiptið í röð.
Mehdi Taremi skoraði sigurmarkið á 48. mínútu en með sigrinum er Íran komið með 19 stig og er öruggt með að enda í öðru tveggja efstu sætanna þó þremur umferðum sé ólokið.
Suður-Kórea vann Líbanon 1:0 á útivelli í dag og er með 17 stig, og nægir einn sigur í síðustu þremur leikjunum til að gulltryggja HM-sætið. Sameinuðu arabísku furstadæmin standa síðan best að vígi um að ná þriðja sæti riðilsins, sem gefur sæti í umspili.
Í hinum riðlinum vann Ástralía sigur á Víetnam, 4:0, í dag og Japan vann Kína, 2:0.
Sádi-Arabía með 16 stig, Japan með 15 og Ástralía með 14 berjst um tvö örugg sæti á HM en Sádi-Arabar eiga eftir að mæta Oman í kvöld og geta styrkt stöðu sína frekar með sigri. Eitt þessara liða þarf að fara í umspil.