Knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson er á leið í aðgerð vegna meiðsla á liðþófa.
Þetta staðfesti Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður leikmannsins, í samtali við fótbolta.net.
Kolbeinn, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Borussia Dortmund í Þýskalandi og hefur leikið með varaliði félagsins í þýsku C-deildinni á leiktíðinni.
Alls hefur hann komið við sögu í ellefu leikjum með liðinu á tímabilinu en í átta þeirra hefur hann verið í byrjunarliðinu.
Leikmaðurinn verður frá næstu vikurnar vegna meiðslanna en hann gekk til liðs við þýska félagið frá Brentford árið 2019.
Alls á hann að baki 2 A-landsleiki fyrir Ísland og 44 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað þrjú mörk en hann er uppalinn hjá Fylki í Árbænum.