Knattspyrnusamband Gana hefur tekið ákvörðun um að reka Serbann Milovan Rajevac úr starfi aðalþjálfara eftir að liðið féll úr leik í riðlakeppninni á Afríkumótinu í Kamerún á dögunum.
Gana, sem fyrirfram var talið eitt af sigurstranglegri liðum mótsins, vann sér aðeins inn eitt stig í þremur leikjum í C-riðlinum með Marokkó, Gabon og Kómoreyjum.
Steininn tók úr þegar Gana tapaði 2:3 fyrir smáþjóð Kómoreyja í lokaleik riðilsins og því afréð knattspyrnusambandið að láta Rajevac taka pokann sinn.
Leit stendur því yfir að nýjum aðalþjálfara fyrir mikilvæga leiki Gana í umspili um sæti á HM gegn nágrönnum sínum í Nígeríu í mars.