Wolfsburg vann sannfærandi 3:0-útisigur á Potsdam í þýsku Bundesligunni í fótbolta í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir lék sinn fyrsta leik með Wolfsburg en hún kom af bekknum á 72. mínútu í stöðunni 3:0. Wolfsburg er á toppi deildarinnar með 29 stig eftir 12 leiki.
Sveindís kom til félagsins frá Keflavík á síðasta ári en lék með Kristianstad í Svíþjóð á síðustu leiktíð að láni. Þar á undan var hún að láni hjá Breiðabliki og varð Íslandsmeistari með liðinu á síðasta ári.
Hin tvítuga Sveindís hefur farið mikinn með íslenska landsliðinu og skorað sex mörk í fyrstu þrettán landsleikjunum. Þá hefur hún skorað 21 mark í 32 leikjum í efstu deild hér á landi.