Egyptaland varð í dag þriðja liðið til að tryggja sér farseðil í undanúrslit Afríkukeppninnar í knattspyrnu en liðið sigraði Marokkó 2:1 eftir framlengingu í hörkuleik.
Sofiane Boufal kom Marokkó yfir úr vítaspyrnu strax á 7. mínútu en Mohamed Salah jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks. Bæði lið virtust hafa meiri áhuga á öðru en fótbolta það sem eftir er, en leikurinn var meira og minna stopp vegna leiktafa beggja liða.
Í framlengingunni var það svo Trézéguet, leikmaður Aston Villa á Englandi sem skoraði sigurmarkið eftir frábæran undirbúning Salah og allt ætlaði um koll að keyra. Leikmenn Marokkó reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en allt kom fyrir ekki.
Egyptaland mætir Kamerún í undanúrslitum og í kvöld kemur svo í ljós hvort það verður Senegal eða Miðbaugs-Gínea sem mætir Búrkína Fasó.