Senegal vann 3:1 sigur á Miðbaugs-Gíneu í Afríkukeppninni í knattspyrnu í kvöld og tryggði sér þar sem farseðil í undanúrslit keppninnar.
Famara Diedhiou leikmaður Alanyaspor í Tyrklandi kom Senegal yfir í fyrri hálfleik eftir undirbúning Sadio Mané leikmanns Liverpool á Englandi. Jannick Buyla Sam, leikmaður Gimnástic í spænsku C-deildinni jafnaði metin fyrir Miðbaugs-Gíneu þegar seinni hálfleikur var rétt rúmlega 10 mínútna gamall en varamaðurinn Cheikhou Koyaté, leikmaður Crystal Palace á Englandi kom Senegal aftur yfir um 10 mínútum síðar.
Það var svo annar varamaður, Ismaila Sarr, sem leikur með Watford á Englandi, sem kláraði leikinn fyrir Senegal eftir frábæran undirbúning og stoðsendingu Mané, hans önnur í dag. Þetta var fyrsti leikur Sarr á mótinu sem hefur verið frá vegna meiðsla.
Senegal mæta Búrkína Fasó í undanúrslitum keppninnar en í hinum undanúrslitaleiknum mætast Egyptaland og Kamerún.