Dagný Brynjarsdóttir og stöllur hennar í West Ham unnu sannfærandi 4:1 sigur á Sheffield United í enska bikarnum í knattspyrnu í dag.
Dagný byrjaði á bekknum en hún hefur verið frá vegna veikinda og missti meðal annars af leik liðsins gegn Chelsea í vikunni vegna þeirra. Hún kom inná sem varamaður í stöðunni 3:1 í dag og bætti við fjórða markinu einungis fjórum mínútum síðar.
Þetta er annar leikurinn í röð sem Dagný spilar og skorar í en fyrir viku síðan skoraði hún eitt þriggja marka West Ham í 3:0 sigri gegn Everton.
West Ham er komið áfram í 16-liða úrslit enska bikarsins en ekki er komið á hreint hverjum liðið mætir þar.